Kóngurinn í bergmálshöllinni er sungið í vinsælu dægurlagi. Lagið fjallar um mann sem býr í stóru húsi í Garðabænum. En ég var einmitt staddur í þannig húsi, í barnaafmæli, sem væri nú ekkert til að skrifa um ef ekki hefði kristallast það sem svo margir neyðast til að búa við. Gestirnir voru í raun ekki margir, samt var erfitt að halda uppi samræðum við næsta mann þó viðkomandi sæti á móti manni, eða jafnvel við hliðina. Er einhver sem kannast við sig í þessum aðstæðum?
Hljóðvistinni var… tjah… ábótavant, ábótavant væri kannski gott orð. Talað mál heyrðist mjög vel á milli hæða og talaði húseigandi um að jafnvel lágvært tal eða hvísl heyrðist vel á milli hæða.
Gestirnir voru 25 talsins og dreifðust á samtals 180 fermetra. Yfir 7 fermetrar á mann en samt héldu sig flestir á um 90 fermetrum enda veislan á neðri hæðinni – Þetta gerðu 3,5 fermetrar á mann. Einhver ferð var á fólki milli hæða (aðallega á börnunum) með tilheyrandi gleði og gamni. Það var ekki fyrr en gestir fóru að týnast heim að maður áttaði sig á því hversu þreytandi það er að vera í svona aðstæðum, þó ekki séu það nema 2-3 tímar. Þó að venjulegt heimilislíf sé ef til vill ekki jafn krefjandi og afmæli þá breytist hljóðvistin ekkert þó að á heimilinu séu 5 manns og hundur eða 25 manns og hundur.
Heimilið
Húsið var á tveimur hæðum eins og áður sagði, mikið og fagurt opið rými á fyrstu hæðinni sem rúmaði
- eldhús
- borðstofu
- stofu
- lesstofu
- óskilgreint pláss fyrir framan anddyri og stigaop
- stigaop með yfir 6m lofthæð mælt frá botnplötu
Þetta rými var um 90 fermetrar og lofthæðin var um 2,9m. Rúmmálið var nálægt því að vera 270 rúmmetrar. Byggingarefnin voru hefðbundin, gifsveggir, steyptir veggir, útveggur glerjaður frá gólfi og uppí 2,2 metra. Loftið steypt og gólfið parketlagt. Hefðbundið íslenskt heimili árið 2020.
Hvernig hefur þetta áhrif á þig?
Hávaði er mjög uppáþrengjandi fyrir hugann. Sérstaklega þar sem ekki er hægt að loka eyrunum fyrir hávaða líkt og hægt er að loka augunum. Þó að hávaði sé ekki endilega mikill þá hefur stöðugur hávaði þau áhfrif á taugakerfið að það er alltaf í viðbragðsstöðu og þetta gerist í þeim hluta heilans sem við getum ekki stjórnað, sami hluti og stjórnar öndun og hjartslætti. Þessi viðbraðgsstaða veldur því að stresshormón seytast út í blóðrásina og það veldur hækkun á blóðþrýstingi og hraðari hjartslætti. Svokallað „flýja eða berjast“ viðbragð er í gangi. Það er ómögulegt fyrir marga að hvílast og njóta samvista í slíkum aðstæðum. Margir sem eru heyrnarskertir upplifa þar að auki mjög mikil óþægindi í slæmri hljóðvist. Þetta getur verið sérstaklega erfitt fyrir fólk með tinnitus eða heyrnarskerðingu á ákveðnu tíðnisviði.
Fólk fer að pirrast út í aðra í nánasta umhverfi vegna hljóðáreitis hvort sem það er leikur barna, sjónvarp, útvarp, eða makinn að reyna að ræða mikilvæg málefni eða bara um daginn og veginn. Það að hækka róminn í hávaða er sálrænn fylgifiskur þess þegar kliður er mikill (kallað Lombard áhrif). Fólk hækkar rómin óþarflega, breytir tónfallinu eða talar hraðar til þess eins að geta átt samskipti – sem veldur svo auknum pirringi og þreytu og vítahringur skapast. Ég útiloka ekki að hegðun barna kunni að stýrast að einhverju leyti af hljóðvist þó ég hafi enn ekki rekist á rannsóknir sem sýna fram á það.
Hvað þarf að gera?
Með einföldum útreikningum gat ég fundið út að á neðri hæðinu væri þörf á um 50 fermetrum af hljóðdempandi fleti af einhverju tagi. Að sjálfsögðu ber að nefna að mæling á ómtímalengd væri mun nákvæmara aðferð til þess að ákvarða þörf á hljóðdempun.
Fljótt á litið þá er þetta um það bil helmingur af gólfflatarmáli neðri hæðarinnar. Í svona opnu rými þá er lítið um veggi, óhjákvæmilega. Í þessu húsi reiknaðist mér til að veggir sem hægt væri að nýta undir hljóðdempun væru um 50 fermetrar. En þá er ég að taka allt veggplássið sem er ekki með gluggum, skápum og innréttingum. Það er í mörgum tilfellum óásættanlegt fyrir íbúa að fórna öllu veggplássinu undir eitthvað svona. Veggpláss þarf oft að nýta undir myndir, veggljós eða húsgögn og það er líka þannig á mínu heimili. Sumir vilja líka einfaldlega bara leyfa veggjunum að njóta sín og þá verður það að ganga líka. Loftið er þá vannýtt auðlind í mörgum aðstæðum.
Annað sem verður að hafa í huga þegar um svona opið rými er að ræða, er að það verður að dreifa hljóðdempun um rýmið. Það gerir því miður ekki ástandið endilega betra að dempa vel í einum endanum og láta hinn endann ódempaðann. Í þannig aðstæðum verður gott að vera í dempaða hluta rýmisins en ódempaði hluti rýmisins verður áfram sama gjallarhornið og skilar öllu hljóði frá sér yfir í dempaða hluta rýmisins. Á heildina litið verður áfram krefjandi að vera í þannig rými þó að hluti þess geti verið þægilegur.
En ég er að verða galinn á hljóðvistinni, hvað á ég að gera?
Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um að gera eitthvað.
Nothæf þumalputtaregla (með fyrirvara, þetta hentar kannski ekki heima hjá þér) er samt að nota að minnsta kosti þriðjung af flatarmáli gólfs undir eitthvað sem dempar hljóð eða dreifir því og kemur þannig í veg fyrir bergmál. Þetta geta verið húsgögn svo sem bólstraðir stólar, borð, stór skenkur, bólstraðir sófar eða bókahillur, þykk gluggatjöld (ekki þessi næfurþunnu gegnsæju) eða sérvaldar hljóðdempandi lausnir svo sem vegg- eða loftaklæðningar.
Í aðstæðum þar sem lengd ómtíma er krefjandi og hljóðvistinni ábótavant, og það eru ófá húsin sem byggð hafa verið á þennan hátt síðastliðin 25 ár, þarf að hafa lausnirnar í samráði við íbúa. Langsamlega best væri að huga að þessu á byggingartíma hússins, fremur einfallt er að reikna út væntan ómtíma í óbyggðu húsi. Þar sem Íslendingar verja meirhluta ársins innandyra þá finnst mér í hæsta máta undarlegt að ekki sé hugsað meira út í þennan hluta híbýla fólks strax á hönnunarstiginu.
En hvað um þegar byggð hús? Þar verður að hafa lausnirnar þannig að þær falli vel að öðrum arkitektúr hússins og smekk fólks. Þetta er hægt. Og heimilið þitt þarf ekki að líta út eins og læknastofa eftir breytingarnar. Eða hljóðupptökuver. Nema að þú sért að sækjast eftir þannig lúkki…(?).
Sem hljóðvistarráðgjafi þá er það hluti af mínu starfi að þekkja hvaða lausnir ganga inná heimilum fólks og hvað ekki, lóðsa fólk um markaðinn og benda á lausnir sem gætu hentað. Heimilisfólk þarf hinsvegar sjálft að ákveða hvað hentar í þeirra híbýlum. skoða málin af opnum hug og vera tilbúið í breytingar. Ef hljóðvistinni á þínu heimili er ábótavant þá eru til lausnir.
Áhrifaríkasta og besta skrefið væri að tala við fagfólk eins og hljóðverkfræðinga og spyrja hversu marga fermetra af hljóðdempun gæti þurft inná þitt heimili. Það kostar yfirleitt minna en þig grunar og örugglega minna en að fá aðstoð pípara eða smiðs í nokkra tíma. Fyrir marga getur góð hljóðvist verið það sem skilur á milli þess að fórna heilsu til frambúðar, halda heilsu eða endurheimta heilsu.
Ekki hika við að hafa samband og fá fast verðtilboð í hljóðvistarráðgjöf heima hjá þér!