Eldri steinsteypt hús og hljóðvist

Umræða undanfarinna daga um málefni bygginga, byggingarannsókna, óvandvirkni og ábyrgðir á íslenskum bygginarmarkaði hafa verið okkur hvatning til aukinnar fræðslu útávið. Þó að hljóðvist sé oftar en ekki í góðu lagi í nýjum húsum þá gerist það líka á okkar sviði að slæleg hönnun, eða skortur á hönnun, valdi miklum og óþarfa kostnaði, pirringi og leiðindum. Við ætlum hinsvegar ekki að ræða nýjar byggingar núna, heldur þær sem eldri eru.

Hljóðvist í eldri, steinsteyptum húsum sem finna má í vesturbæ Reykjavíkur, Teigunum, Vogunum, Hlíðunum en eins í Hafnarfirði og víðar, er oft viðkvæm og með mikil hljóðbærni milli hæða. Þetta eru hús sem eru byggð eftir seinna stríð og fram eftir öldinni. Margt af því sem við nefnum hér á eftir gildir einnig fyrir nýleg hús sem byggð eru á svipaðan máta, en við skoðum eldri húsin núna.

Þegar nýjar kynslóðir, barnafjölskyldur eða ungt fólk á öllum aldri, flytja inn í húsin fer oft í hönd tími framkvæmda. Oftar en ekki er um eðlilegt viðhald að ræða. Endurnýjun lagna, gólfefna, innréttinga og fleira. Við fáum mjög reglulega símtöl og tölvupósta frá fólki sem er annaðhvort búið að framkvæma eitthvað, eða að nýji nágranninn sé búinn að framkvæma eitthvað, og hljóðvistin er ekki í lagi eftirá – slæm var hún en hún er jafnvel verri eftir framkvæmdirnar. Hvað er til ráða er spurt. Svarið er ekki einfalt en við ætlum að reyna skoða þetta aðeins í þessum stutta pistli.

Byrjum á því að skoða byggingarnar sjálfar. Margar af þessum byggingum eru byggð á mjög svipaðan máta. Í þeim eru steyptir útveggir og steyptar plötur á milli hæða. Oft er sperruþak yfir risinu sem er stundum nýtt sem íbúð en í öðrum tilfellum sem geymsla.

Útveggirnir, sem eru steyptir, eru í langflestum tilfellum einangraðir að innan með plasteinangrun. Yfir einangrunina var svo sett hænsnanet og múrað yfir. Hjáleiðsla er það sem gerist þegar hljóð berst meðfram vegg, í gólfi og framhjá öðrum veggjum eða gólfplötu. Þetta er titringur í einhverju efni eða hljóð sem berst í lofti, sem berst á milli tveggja rýma. Í tilfelli útveggjanna þá hefur steyptur útveggurinn mjög lítið að segja um hljóðeinangrun t.d. milli hæða, það er þessi plasteinangrun og múrhúðin sem er aðalmálið. Þar sem þessi háttur er á verður oft mikil hjáleiðsla hljóðs, hljóð berst inn í múrhúrhúðina, inn í plastið og ferðast sem titringur á milli hæða framhjá gólfplötunni.

Það getur verið erfitt að sjá þetta fyrir sér en það er hægt að prófa eftirfarandi tilraun til þess að auka skilninginn. Fáðu einhvern með þér í þessa tilraun. Stilltu símann þinn á titring og leggðu hann ofan á borð og farðu svo undir borðið. Fáðu svo aðstoðarmanneskju til þess að hringja í símann þinn sem er á borðinu, síminn byrjar að titra og titringurinn berst í gegnum borðplötuna og þú heyrir eitthvað hljóð fyrir utan titringinn – hljóðið kemur úr plötunni sem virkar eins og hátalari núna.

Láttu símann hringja áfram, en biddu svo aðstoðarmanneskjuna þína að lyfta símanum af borðinu og hlustaðu eftir því hvað gerist. Hljóðið hættir, eða breytist og minnkar að minnsta kosti. Þetta er það sama og gerist við hjáleiðslu hljóðs, titringur berst með veggjum niður í gólfplötuna og í gegnum gólfplötuna. Hér hjálpar ekki að lagfæra gólfefni, það þarf að lagfæra vegginn á réttan hátt.

En hvað ef vandinn er ekki þar. Gólfplötur í þessum húsum voru mjög þunnar á nútímamælikvarða, eða um 140 mm þykkar. Til samanburðar þá eru plötur á milli hæða í fjölbýlishúsum í dag ekki þynnri en 220-230 mm. En hvað þýðir þetta fyrir hljóðeinangrunina? Gömlu plöturnar náðu kannski 50 dB lofthljóðeinangrun við bestu aðstæður, en vegna hjáleiðslu er hún eitthvað lægri – kannski 44-48 dB. Nýju plöturnar eru hannaðar til þess að ná að minnsta kosti 55 dB og allir sem hafa þekkinguna eru hættir að einangra að innan til þess að koma í veg fyrir hjáleiðslu.

5 dB munur hljómar ekki eins og eitthvað til að hafa áhyggjur af, en í þessum aðstæðum er þetta nefnilega munurinn milli þess að geta heyrt fólk tala saman, heyra í ljósvakamiðlum, barni gráta, fólki athafna sig, eða ekki heyra það. Til þess að setja þetta í annað samhengi: hljóðeinangrun sem er 44-48 dB er algeng í vel hljóðhönnuðu skrifstofuumverfi í dag.

Eitt sem oft ratar inn á borð hjá okkur eru spurningar um gólfhita. Það er vinsælt að setja gólfhita í dag, þegar það er gert þá er gólfefni tekið af plötunni, oftast eru fræstar raufar í steyptu plötuna til þess að koma fyrir hitarörum og svo er flotað yfir til þess að fá flatt yfirborð til að leggja gólfefni ofaná. Hitarörin eru kannski 16 mm í þvermál þannig að platan þynnist um kanski um 16 – 20mm undir rörunum, þéttleiki röranna er svo kannski þannig að 1/5-1/3 af flatarmálinu á gólfinu hefur verið þynntur niður í 120 mm. Hljóðbærni eykst og svo getur það gerst að flæðishljóð í vatni bætist við. Efnið sem flotað var með getur svo hæglega aukið á að högghljóð heyrist á milli hæða með versnandi samskiptum og skertum búsetuskilyrðum fyrir alla íbúa í kjölfarið.

Hús eru flókin fyrirbæri. Sér í lagi þar sem gamli tíminn og nýji tíminn mætast geta orðið harkalegir árekstrar. Það er þess virði að hugsa þrjú skref fram í tímann og spurja einhvern óháðan aðila (þ.e. aðra en sölumenn byggingarlausna) um kosti og galla þess að gera ákveðnar breytingar áður en hafist er handa. Kapp er best með forsjá.

Share This