Hljóðdempun eða hljóðeinangrun? Er það ekki sami hluturinn?

Við Íslendingar stærum okkur oft af því að vera vel máli farin, eiga okkar eigið orð fyrir öll alþjóðleg hugtök og vera annt um að merking orðanna skili sér í texta. Það eru tvö orð sem okkur er tamt að nota í daglegu tali þegar kemur að hljóði inni í rými eða á milli rýma. Hljóðdempun og hljóðeinangrun. Það er tilvalið tilvalið að skrifa aðeins um þessi tvö orð og merkingu þeirra.

Þessi orð eru í daglegu tali oft notuð til þess að lýsa sama hlutnum þó alls ekki sé um samnefni að ræða. Lítum til nágrannalanda okkar og þeirra orða sem notuð eru þar, á ensku eru þessi tvö orð sounddamping og soundisolation . Á sænsku, dönsku og norsku eru þessu orð keimlík á milli landa og eru annarsvegar ljuddämpning/lyddæmpning/støydemping og hinsvegar ljudisolering/lydisolering/støyisolering. Þarna kemur svo norska orðið støy líka fyrir, en það þýðir hávaði.

En hvers vegna eru þessi orð ekki samnefni? Ástæða þess liggur í þeim áhfrifum sem ætlað er að ná fram með annarsvegar hljóðdempun og hinsvegar hljóðeinangrun.

Í tilfelli hljóðdempunar, þá notum við það þegar talað er um hljóð inni í rými. Við dempum hljóð inni í rými til að ná niður ómtíma og glymjanda í rýminu.

Hljóðeinangrun hinsvegar, það orð er notað þegar talað er um hljóð sem berst á milli tveggja aðskildra, lokaðra rýma sem eru til dæmis herbergi heima við, skrifstofur í vinnunni eða frá útisvæði og inn.

Það kann að þykja lítið mál að nota hljódempun til að lýsa því sem gerist á milli herbergja, hljóð dempast á leið sinni í gegnum veggi, það er rétt. Málið vandast svo vegna þess að ekki er hægt að tala um hljóðeinangrun inni í herbergi. Einangrun er orð sem lýsir því þegar tvö rými, efni eða hlutir eru aðskilin hvor öðru(m). Samnefni ætti að vera hægt að nota fyrir sama hugtak í öllum tilfellum, en hljóðeinangrun fellur á því prófi.

Annað sem einnig fellir þessi hugtök á samnefna prófinu eru áhrifin sem verið er að lýsa en það er ef til vill auðskiljanlegra ef tekið er dæmi. Þegar hljóðdempun í herbergi er rædd þá lækkar mælt hljóðstig í herberginu eitthvað smávegis, segjum 2-3 dB (en það fer eftir stærð og lögun rýmisins í öllum tilfellum). Hljóðeinangrun á milli herbergja er þannig að hljóðstig í öðru rýminu er hinsvegar bilinu 20-70 dB lægri en hinum megin við vegginn (allt háð því hvernig veggurinn er samsettur og úr hvaða efnum er byggt). Þessar stærðargráður, 2-3 dB og svo 20-70 dB eru ef til vill svolítið óáþreifanlegar. Lækkun um 2-3 dB er lækkun hljóðorku tuttugafalt til þrítugfalt, sem kann að hljóma mikið en lækkun um 20 – 70 dB er lækkun hljóðorku tugþúsundfalt til tugmiljónfalt.

Hér er vel hægt að ímynda sér að ef hljóðdempað er á milli herbergja berst hljóð ennþá mjög greiðlega á milli í ljósi þeirra stærðargráða sem um ræðir og því ljóst hvers vegna það er mikilvægt að halda þessu tvennu aðskildu. Ég vona að þessi stutti pistill hafi skýrt merkingu orðanna að einhverju leyti og að þú getir í kjölfarið beitt þeim fyrir þig í réttum aðstæðum.

Share This