Ef þú hyggur á breytingar á þegar byggðu húsnæði þá eru nokkur atriði sem þú þarft að hafa í huga. Eitt það mikilvægasta og fyrsta sem ber að nefna er að fyrir sumum breytingum þarf að fá byggingarleyfi. Aðrar breytingar geta haft áhrif á burðarvirki byggingunar – ekki fara rífa veggi án þess að athuga hvort það sé burðarveggur. Eitt sem fer of oft framhjá fólki er að breytingar geta breytt hljóðvist til hins verra. Oft er viðkvæðið „sjáum bara til hvort það verði ekki í lagi“ og svo er hafist handa.
Mín reynsla af breytingum bygginga þar sem hljóðvist er skoðuð fyrir breytingar er sú að hægt er að benda á hvernig hljóðvist muni breytast. Þá er hægt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja góða hljóðvist eftir breytingar. Ef ekkert er skoðað fyrirfram er nær öruggt að lausnir til að tryggja góða hljóðvist (eða þolanlega eins og það verður oft) verða klasturslegar og falla illa að öðrum arkitektúr. Það er leiðinlegt fyrir húseigndur þegar það verður þannig, hvort sem þeir eru einkaaðilar, sveitarfélög eða fyrirtæki. Það er svo auðvelt að gera hlutina rétt í upphafi og að sama skapi, svo leiðinlegt að þurfa gera hlutin aftur þegar það kemur í ljós að hljóðvistin er ófullnægjandi.
Í byggingarreglugerð eru gerðar kröfur til hljóðvistar við breytingar á byggingum. Það fer framhjá mörgum en ákvæðið er að finna í grein 11.1.3 Staðfesting hljóðvistar vegna breytinga þegar byggðra mannvirkja (bls. 115) og þar stendur:
„Við breytingu á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skal hönnuður aðaluppdráttar, eða annar hönnuður sem tekur að sér ábyrgð á hönnun hljóðvistar, staðfesta að hljóðvist uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til. Við staðfestingu hljóðvistar skulu eftirfarandi kröfur uppfylltar:
a. Við breytta notkun mannvirkis skal hönnuður staðfesta að hljóðvist þess fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna hinnar nýju starfsemi skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.
b. Við minniháttar breytingu eða viðgerð á mannvirki skal hönnuður staðfesta að hljóðvist þess eftir breytinguna sé fullnægjandi miðað við kröfur sem giltu þegar mannvirkið var reist.
c. Sé byggt við hús eða annað mannvirki eða hluti þess eða heild er endurnýjuð ber hönnuði að staðfesta að hljóðvist hins nýja, breytta eða endurnýjaða mannvirkis fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til. Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.“
Leiðbeiningarnar má svo nálgast hér.
Fyrir íbúðarhúsnæði þarf í raun ekkert að huga að ómtíma, en hljóðvist tekur einnig til hljóðeinangrunar. Í sumum tilfellum þá ber að líta til þeirra viðmiða sem gilltu fyrir bygginguna þegar húsið var reist (sjá liður b. hér að ofan). Það kemur fyrir að það eru ekki nein viðmið til að styðja sig við en þá ber að líta á flokk D í hljóðvistarstaðlinum ÍST45. Eldri hús eru þar með ekki undanskilin öllum hljóðvistarkröfum. Það er til dæmis bannað að rýra hljóðeinangrun á milli íbúða sé um fjölbýlishús að ræða þó að það sé eldra hús. Því miður vill það brenna við að það gerist en það hafa fallið dómsmál þess efnis að íbúa er gert að bæta úr ástandi sem hann sjálfur hefur valdið, á eigin kostnað. Það er ekkert grín að lenda í því. Sjálfur hef ég lennt í því að mæla hljóð frá lögnum á nýuppgerðu baðherbergi sem sungu og vældu í svefnherbergi í íbúðinni fyrir ofan – hljóðstigið frá lögnunum var langt fyrir ofan öll velsæmismörk. Það gerist einnig þegar fólk endurnýjar gólf í eldri húsum að hljóðeinangrun á milli hæða rýrist af einhverjum orsökum. Það þarf að koma í veg fyrir slíkt líka og það er ekki endilega erfitt eða kostnaðarsamt. Það er kostnaðarsamara að þurfa gera allt uppá nýtt og bæta úr hljóðeinangrun.
Þó að ég sé hagsmunaaðili í þessu máli, þá er mér það ljúft og skylt að mæla með samtali við hljóðverkfræðing áður en farið er í breytingar.