Heima er best í sóttkví

Á vafri mínu um netheima rekst ég stundum á áhugaverðar greinar um hljóð og tengd málefni. Það sem hefur vakið áhuga minn uppá síðkastið eru tengsl hljóðs og sálfræðilegra þátta.

Ég rakst á grein á BBC, sem birtist fyrir um hálfu ári síðan og fjallar um hvernig hljóðvist hefur áhrif á líðan fólks. Þetta eru gömul vísindi og ný en hafa því miður ennþá ekki þann sess sem þeim ef til vill ber.

Ef skoðuð er híbýlasaga mannsins þá hefur fyrst og fremst verið hugsað um að fá skjól fyrir veðri og skjól fyrir hættum sem steðjuðu að, hvort sem það voru rándýr eða annað fólk sem vildi manni illt. Næstu skref voru að koma sér upp hitakerfi – sem einnig nýttist sem eldunaraðstaða, þá urðu aðstæður til þess að lifa af í kaldara loftslagi betri. Svona gekk þetta koll af kolli og við bættum inn loftræsingu til þess að losna við raka, einangrun til þess að lækka kyndikostnað, skiptum út olíkyndingu fyrir hitaveitu. Komum fyrir rafmagni, uppfærðum kerfi til lýsingar og eldunar og nú erum við stödd hér.

Hús eru eins ólík og þau eru mörg

Hús okkar í dag eru hátæknivædd þó við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því. Sú staðreynd að við getum verið innandyra í janúar þegar appelsínugulri viðvörun hefur verið lýst yfir, á bol og stuttbuxum hámhorfandi á uppáhalds þáttinn okkar vegna þess að það er þægilegt inniloftslag og endalaust internet, segir okkur allt sem þarf um það.

Næsta skref til þess að auka okkar eigin líðan og bæta heilsuna getur þá vandræðalaust snúið að hljóðvistinni heimavið. Þetta er atriði sem of oft er látið afksiptalaust við hönnun húsa í dag. Nýbyggingar eiga að uppfylla lágmarkskröfur um allskonar hluti sem lesa má um í byggingarreglugerð 112/2012. Það gildir líka um hljóðvist og til er hljóðvistarstaðall á Íslandi – ÍST45. Því miður þá eru engar lágmarkskröfur sem þarf að uppfylla með tilliti til ómtíma fyrir íbúðarhúsnæði, hér er innihljóðvistin gefin húsráðanda til umráða. En svo er það þannig að hljóðvist er ekki skilgreind með ómtímanum einum saman.

Hægt væri að spyrja sig: En fyrst að ÍST45 staðallinn gerir engar kröfur um lágmarksómtíma, er þá þörf á honum? Eru staðlar ekki það besta sem við höfum til að byggja á?

Svarið við því er nei, staðlar eru ekki það besta sem við getum boðið uppá. Staðlar eru tilraun til þess að gera lausn á vandamáli sem kemur oft upp. Tilgangurinn er að skapa gegnsætt og sameiginlegt verklag til úrlausnar á þeim vanda þar sem allir málsaðilar hafa til einhvers að vinna. Allir hafa hagsmuni af því að auka gæði, koma í veg fyrir misskilning og að þurfa ekki að finna upp hjólið í hverju nýju verkefni.

Teikning
Teikningar eru staðlaðar svo að allir sem lesi þær geti deilt sameiginlegu tungutaki.

Slæm hljóðvist hefur áhrif á sálræna þætti hvort sem okkur líkar það eða ekki, hjá því verður ekki komist. Góð hljóðvist getur stuðlað að betri líðan og slæm hljóðvist getur skapað okkur heilsufarsleg vandamál (sagði einhver kulnun í starfi?). Því miður þá eru þessi áhrif langtímaáhrif sem koma oft fram í pirringi, þreytu, stressi og kvíða og því miður, þá er er ekki alltaf hugað að því hvort hljóðvistin á vinnustað og á heimili spili þátt í þessu.

Ef þú, lesandi góður, hefur verið innlyksa í eigin húsi síðustu vikur vegna Covid19 faraldursins þá hefurðu komist í óhemju góð kynni við hljóðvistina heima hjá þér. Spurðu þig þá: Saknarðu vinnustaðarins eða er skárra að vera heima m.t.t. hljóðvistar? Ertu jafn endurnærð/ur og úthvíldur og venjulega? Þarftu að fara út eða senda aðra út til þess að fá stundarfrið og hvíld? Getur verið að það hafi eitthvað með hljóðvistina og skipulagið heimafyrir að gera?

Heimavinna getur verið krefjandi á svo margan hátt…

Ég er sannfærður um að hægt er að minnka neikvæð áhrif á sálræna þætti einstaklinga með því að huga betur að skipulagi og arkitektúr (heima og í vinnu) með tilliti til hljóðvistar. Því að hljóðvist er svo miklu meira en bara þögn.

Share This