Allt er vænt sem vel er grænt. En dempar gróður hljóð?

Ég er oft spurður um gróður og hljóðdempun. Sérstaklega er spurt um blóm og plöntur á heimilum og á skrifstofum og hvort það hafi ekki góð áhrif á hljóðvistina þar. Það er líka oft spurt hvort ekki sé hægt að gróðursetja tré til þess að verjast umferðarhávaða. Eins og venjulega þá eru við þessu stutt svör og löng svör. En bæði svörin eru samt áhugaverð. Tökum fyrst fyrir innirýmið og svo útrýmið.

Gróður innandyra hjálpar. En er það sú hjálp sem þú sækist eftir?

Í stuttu máli sagt þá er svarið já… og nei. En hvað meina ég með því? Jú þannig er að í spurningunum sem ég fæ þá er yfirleitt undirliggjandi sú ósk að það sé hægt að laga öll vandamál sem maður kann að glíma við í hljóðvistinni með stórri plöntu á vel völdum stað í rýminu. Eins og ég skrifaði í öðrum pistli þá verður samt alltaf að hafa í huga nokkra þætti þegar hljóðvist er skoðuð.

Rúmmál rýmisins – Því meira rúmmál, því meiri hljóðdempun (og endurkastsfleti ef til vill?) þarf til að hemja ómtímann.

Byggingarefnin – Því harðari byggingarefni (steypa, gler t.d) gerir dempun mikilvægari ef það á ekki að glymja eins og í kirkju eða tónleikasal fyrir sinfoníu.

Skipulagið og þarfirnar – Hvernig er rýmið notað? Hver notar það?

Meira um þetta má lesa í þessum pistli um skrifstofur og í þessum pistli um heimili.

Gróður dempar vissulega hljóð að einhverju leyti en gróður dregur ekki að sér hljóð og fjarlægir það eins og niðurfall fyrir vatn. Ennþá á eftir að finna upp hagnýtt svarthol fyrir hljóð þó einhverjar rannsóknir þess efnis séu þarna úti. Gróður hefur góð áhrif á loftgæði innanhúss og gróður er fallegur. En ef þú villt ekki búa í frumskógi (sem þú þarft að vökva og viðhalda) þá mæli ég ekkert sérstaklega með gróðri til hljóðdempunar til þess hefur gróður enga sérstaka eiginleika fram yfir aðra hluti. Til eru mun áhfrifaríkar leiðir til þess að dempa hljóð. En jú! Setjið plöntur inn í rými til þess að auka loftgæði og almenna vellíðan.

Hvað með gróður utandyra? Hann hlýtur nú að vera góður hljóðdempari.

Ég fékk senda áhugaverða frétt um daginn, sem birtist á BBC og fjallar um eiginleika ákveðinna trjátegunda til þess að dempa hljóð. Við búum svo vel á Íslandi að hafa landsaðgang að allskonar vísindagreinum þannig að það voru hæg heimantökin að finna greinina sem fréttin var byggð á.

Í greininni kemur fram að stofn lerkitrjáa hafa bestu eiginleikana til þess að dempa og dreifa hljóði miðað við önnur tré. Hér var ekki skoðað áhrif af laufþykkni enda fella flest tré laufin á veturna, þannig eru hljóðdempandi eiginleikar trjáa mjög árstíðabundnir. Það kemur líka fram í greininni að það er öfugt hlutfall á milli sverleika trésins og hrjúfleika barkarins. Það er að segja, hrjúfari tré dempa meira. Sverari tré dempa minna. Því miður vaxa tré þannig að þessir hljóðdempandi eiginleikar trjáa breytast þá líka á löngum tíma.

Lerkitré eru ekki bara falleg. Þau dempa líka hljóð betur en önnur tré virðist vera.

En, nú eru ekki öll kurl komin til grafar. Dempun gróðurbelta er mjög sterklega háð gerð þeirra og stærðar (gerð trjátegunda – lauftré, sígræn, lággróður og svo breiddar og dýptar t.d.). Dempun gróðurbelta er þar að auki mæld sem aukin dempun miðað við að í staðinn væri bara gras á sama fleti.

Gras hefur nefninlega ágæta dempandi eiginleika (en eins og svo oft áður – það er ekki öll sagan) sem byggjast að miklu leyti á þéttleika undirlagsins og rakainnihaldi. Þurrt gras dempar minna en blautt gras. Gras á leirkenndum jarðvegi dempar minna en gras á sendnum jarðvegi. En gróðurbeltin, það má ætla að gróðurbelti eins og tré hafa dempun sem nemur 0,1dB/m umfram gras (þetta er mikilvægt). Því má lesendum vera ljóst að 10m þykkur skógur á milli t.d. akbrautar og húss dempar hljóð um 1dB umfram 10m af grasi á sama svæði. Sem er mikil vinna fyrir litla hljóðdempun á löngum tíma. Það eru áhrifaríkari leiðir til hljóðdempunar en lóðrétt gróðurbelti utandyra.

Ég mæli hinsvegar eindregið með plöntun trjáa við akbrautir þar sem tré eru falleg, draga úr loftmengun og veita tilfinningalegt skjól frá akbrautinni. Í vindi þá mynda líka tré hljóð sem hafa góð áhrif á sálarlífið.

Að lokum

Stingið niður trjám, kaupið ykkur plöntur og fegrið rýmin ykkar inni og úti! Bindið kolefni og aukið loftgæði þar sem þið eruð. Stundið garðrækt inni og úti og þið njótið góðs af. Hljóðvistinni verður samt ekki bjargað með gróðri einum saman, til þess eru til aðrar leiðir.

Share This